154. löggjafarþing — 105. fundur,  30. apr. 2024.

opinber skjalasöfn.

938. mál
[17:51]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinber skjalasöfn. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um opinber skjalasöfn sem varða gjaldtöku og gjaldskrár opinberra skjalasafna. Þá er lagt til að í lögunum verði kveðið á um rafræn skil sem meginreglu en skil á pappírsformi sem undantekningu, öfugt við það sem við á í gildandi lögum.

Virðulegi forseti. Áform Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar um að leggja niður héraðsskjalasöfn sín gáfu tilefni til að skoða þau ákvæði laga um opinber skjalasöfn sem á reynir í slíku tilviki. Sú skoðun leiddi í ljós að gildandi lög eru óskýr hvað þetta varðar. Með frumvarpinu er lögð til breyting á 3. mgr. 10. gr. laganna þannig að skýrt verði að ákvæðið gildi þegar starfsemi héraðsskjalasafns er hætt, hvort sem það var rekið af stöku sveitarfélagi eða af byggðasamlagi. Þá er lagt til að tekið verði fram að tilkynna beri Þjóðskjalasafni Íslands tímanlega þar um, ef til stendur að leggja starfsemi héraðsskjalasafns niður, svo vel megi standa að undirbúningi þess að Þjóðskjalasafnið taki við safnkosti og verkefnum viðkomandi héraðsskjalasafns. Þá er lagt til að Þjóðskjalasafni verði veitt heimild til að ráða til sín starfsfólk héraðsskjalasafns sem hættir starfsemi án auglýsingar.

Framangreind skoðun á gildandi lögum leiddi einnig í ljós að gjaldtökuheimildir opinberra skjalasafna eru óskýrar og á milli þeirra gætir ósamræmis. Gjaldtökuheimildir laganna eiga annars vegar við um gjöld sem opinberum skjalasöfnum er heimilt að innheimta af notendum og hins vegar um gjöld sem Þjóðskjalasafni Íslands er heimilt að innheimta af sveitarfélögum sem ekki reka héraðsskjalasafn vegna þjónustu sem ella væri í höndum slíks safns. Gjaldtaka í tengslum við yfirtöku Þjóðskjalasafns á verkefnum héraðsskjalasafns sem hættir starfsemi er hluti af hinu síðarnefnda. Heimild til þeirrar gjaldtöku er m.a. ætlað að stuðla að jafnræði milli sveitarfélaga óháð því hvort þau standi sjálf að rekstri héraðsskjalasafns eða ekki.

Ákvæði gildandi laga um gjaldtöku opinberra skjalasafna eru á víð og dreif í lögunum og á milli þeirra gætir því miður lítils samræmis. Hið sama á við um ákvæði um gjaldskrá, sem ýmist segja að ráðherra setji reglugerð um gjaldskrá Þjóðskjalasafns eða að safnið setji sér gjaldskrá. Meginefni frumvarpsins er endurskoðun þessara ákvæða. Í því skyni að auka skýrleika laganna er lagt til að þessi ákvæði verði samræmd og að við lögin bætist nýtt og heildstætt gjaldskrárákvæði með skýrri upptalningu um þá þætti sem opinberum skjalasöfnum er heimilt að innheimta gjald fyrir. Setning gjaldskrár Þjóðskjalasafnsins verði í höndum þess sjálfs en háð staðfestingu ráðherra. Sveitarstjórnir eða stjórnir byggðasamlaga setji gjaldskrár héraðsskjalasafna.

Auk framangreinds er með frumvarpinu lagt til að lögfest verði sú meginregla að gögnum beri að skila til opinbers skjalasafns á því formi sem viðkomandi gögn urðu til á. Í nútímastjórnsýslu verður yfirgnæfandi meirihluti gagna til á rafrænu formi. Reglan er því í reynd meginregla um rafræn skil gagna til opinberra skjalasafna í samræmi við stefnu stjórnvalda þar um. Eins og nánar er útskýrt í greinargerð með frumvarpinu er ekki um að ræða fortakslausa skyldu til rafrænna skila, heldur stefnumarkandi meginreglu.

Virðulegi forseti. Ég læt hér með lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði vísað til meðferðar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að lokinni 1. umræðu.